Verkefnið

Skipulag og útlit miðbæjarreits á Selfossi í kynningu

Sigtún þróunarfélag ehf hefur vilyrði bæjarráðs Árbogar fyrir úthlutun miðbæjarreitsins á Selfossi til þróunar á byggð fyrir almenna miðbæjarstarfsemi og ferðaþjónustu. Tillaga að deiliskipulagi, sem unnin var af Batteríinu-arkitektum og VSÓ-ráðgjöf, hefur verið afgreidd í bæjarstjórn Árborgar í lögformlegt ferli auglýsingar og kynningar.

Bæjarstjórnin og þróunarfélagið eru ásátt um að kynningin snúi ekki aðeins að deiliskipulaginu heldur ekki síður að ásýnd og útliti fyrirhugaðrar byggðar á miðbæjarreitnum. Bæjarstjórnin hefur einnig sent Skipulagsstofnun tillögu að breyttu aðalskipulagi Árborgar, sem varðar nýja vegtengingu af hringtorgi við brúarsporðinn inn á miðbæjarsvæðið, til athugunar og er hún auglýst samhliða.

Miðbæjarsvæðið, sem blasir við þegar komið er yfir Ölfusárbrú inn í bæinn, hefur staðið autt um árabil. Hugmyndir Sigtúns miða við að skapa heildstætt svipmót líflegs miðbæjarkjarna þar sem alhliða iðja og afþreying geri Selfoss fært að taka með kraftmeiri hætti en áður þátt í ferðaþjónustunni í landinu. Hinni nýju byggð er ætlað að gegna eðlilegu miðbæjarhlutverki fyrir íbúa Árborgar, en skapa jafnframt með aðdráttarafli sínu áhugaverð ný tækifæri fyrir sveitarfélagið og ferðaþjónustuna.

Gert er ráð fyrir að húsin í miðbænum verði leigð út til áhugasamra aðila fyrir margskonar starfsemi og í miðbæjarkjarnanum verði sambland af þjónustufyrirtækjum, veitingastöðum, verslunum, handverksstarfsemi, íbúðum og fleiru.

Sigtún þróunarfélag og Mjólkursamsalan hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf félagana varðandi endurreisn Gamla mjólkurbúsins og þróun sýningar sem tengist íslenska skyrinu og mjólkuriðnaðinum. Tvær sýningar aðrar, um byggingasögu frá upphafi til okkar daga og um konungsheimsóknir, eru í undirbúningi.

Skjólgóður og hlýlegur miðbær á Selfossi

„Meginbreytingin frá gildandi skipulagi er ný gata frá Tryggvatorgi inn í kjarnann“, segir Sigurður Einarsson arkitekt hjá Batteríinu í viðtali.
„Húsum fjölgar og við það skapast meira miðbæjaryfirbragð með þröngum götum og þremur torgum. Ekkert húsanna, sem áætlað er að verði 31, er hærra en 3 hæðir og ris, og mörg mun lægri. Breidd gatna er höfð áþekk og á Laugaveginum í Reykjavík, eða um 10 metrar. Þannig er skapað göturými sem heldur utan um fólk. Með því að götur hlykkjast og hús standa með ólíkum hætti brýtur byggðin vindinn og það skapast þrjú skjólgóð og hlýleg torg. Bílum verður ekki úthýst í miðbænum, en einstefna er til suðurs í aðalgötunni og í þvergötu er einstefna til austurs. Í götunum eru bílastæði fyrir viðskiptavini en til viðbótar eru bílastæði að húsabaki.“

Viljum ná stemningu sem fólk kann vel við

Sigurður Einarsson arkitekt bendir á að gengið hafi erfiðlega að skapa þá stemningu sem er í gömlum miðbæjum eins og í Hafnarfirði, Reykjavík, Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði þegar unnið hafi verið að gerð nýrra miðbæja.

„Við viljum gera gömlum byggingum, sem því miður hafa horfið af sjónarsviðinu, hátt undir höfði og endurbyggja þær sem viðkunnanlega umgjörð um mannlíf í nýjum miðbæ. Það á að vera gaman að ganga um og virða fyrir sér handbragð, húsaskreytingar og byggingarstíl á þessum húsum. Við eigum að vísu einungis teikningar af örfáum af þeim húsum sem ætlun er að reisa og þurfum því að reiða okkar á ljósmyndir og ritaðar heimildir til þess að endurvekja útlit og ytra byrði flestra þeirra. Kröfur um athafnarými, aðgengi, öryggi, eldvarnir og fleiri kvaðir í byggingarreglugerðum eru þannig í dag að húsin að innan verða önnur en þau voru. Það gefur okkur svigrúm til þess að koma fyrir íbúðum, veitingastöðum, vinnustofum listamanna og handverksmanna, verslunum, þjónustu- og gistirými í þessum húsum. Sum húsin verða tengd saman til þess að auka athafnarými en einnig til skjóls. Í tengibyggingum verður um nýja hönnun að ræða en leitast er við að virða tengslin við hið gamla með efnisvali og útfærslu.“

Ábendingar frá fólki og viðskipaaðilum teknar með

Ennfremur leggur arkitektinn áherslu á að það hafi verið uppörvandi að fá fjölda ábendinga og tillagna um hús og skipulagið á nýja miðbænum: „Við gerðum okkur frá upphafi far um að kynna hugmyndirnar að skipulaginu og útliti gatna og húsa. Á því ári sem liðið er frá því að umfjöllun fór af stað hefur hugmyndin þróast verulega, ekki síst í þá átt að finna hús sem henta til þess að gera starfsemi í nýja miðbænum sem fjölbreyttasta.“

Sigurður segir að vonast sé til til að bæjargarðurinn komist í lifandi tengsl við miðbæinn og fléttist saman við mannlífið þar. Það sé einmitt heildarhugsunin að baki verkefninu sem geri það heillandi og spennandi að vinna við það. Með því verði starfsemin í miðbænum nógu fjölbreytt til þess að verða aðlaðandi fyrir almenning auk þess sem hann sé í beinum tengslum við útivistar-og samkomusvæði Selfyssinga.

Batteríið tengir gamalt og nýtt

Batteríið – arkitektar ehf. er meðal þekktustu fyrirtækja landsins í ráðgjafarþjónustu á sviðum arkitektúrs, skipulags- og umhverfishönnunar. Það var stofnað árið 1988 og eru starfsmenn þess um 25 talsins. Batteríið vinnur á alþjóðlegum mörkuðum og býr yfir umfangsmikilli reynslu af mannvirkjahönnun og skipulagsgerð. Hönnun Hörpu með Ólafi Elíassyni og danskri arkitektastofu, viðbygging Alþingis og stórverkefni í Kanada og Skandinavíu eru meðal þekktari verkefna Batterísins. Það hefur fengið fjölda innlendra og erlendra verðlauna fyrir verk sín. Batteríið er sérstaklega rómað fyrir að tengja saman gamalt og nýtt í hönnun sinni. Nánari upplýsingar um Batteríið – arkitekta má fá á heimasíðu þess.

 

.